Wednesday, September 30, 2009

Uppskeruhátíðin



Uppskeruhátíð æskulýðsstarfsHestamannafélagsins Loga
Mánudaginn 28. október var haldin vegleg uppskeruhátíð æskulýðsstarfssins í grunnskólanum í Reykholti. Um 70 manns þ.e. flest barnanna sem skráð eru í félagið mættu og fjölmargir foreldrar og voru allir búnir að útbúa einhverjar kræsingar á hlaðborð sem svignaði undan herlegheitunum. Farið var yfir fyrirhugað starf á næsta ári og viðraðar nýjar hugmyndir Æskulýðsnefndin veitti þeim börnum sem tóku þátt í Æskan og hesturinn verðlaunapening og foreldrum sem á einn eða annan hátt komu að sýningunni var veitt viðurkenning fyrir vel unnin störf. Þá var farandskjöldurinn Feykir veittur í fyrsta sinn, en hann gaf Jóhann Björn Óskarsson til minningar um tvo látna syni sína. Skjöldinn hannaði Sigga á Grund (Sigríði Jónu Kristjánsdóttur) en hann hlaut í ár Vilborg Rún Guðmundsdóttir fyrir dugnað, framfarir og prúðmennsku í hestamennsku. Svo var boðið að hlaðborðinu og spjallað yfir veitingunum eitthvað fram eftir kvöldi.
Æskulýðsnefnd Loga

Saturday, September 26, 2009

Gjafir til Æskulýðs Loga


Feykir eftir Siggu frá Grund

Við þökkum fyrir velvilja í garð æskulýðsstarfsins hjá Loga en Hestamannafélaginu hafa borist ýmsar gjafir að undanförnu. Á hestaþinginu í Hrísholti höfðu nokkrir tekið sig saman fyrir tilstuðlan Jóhanns Björns Óskarssonar og unnið að ýmsum endurbótum á svæðinu bera í stíga, veg og plan. Þar komu þau að Sigurður og Mábil á Geysi sem útveguðu möl ofan úr Haukadal. Einnig var félaginu færð forláta fánastöng sem unnin var úr greni sem fengið var úr Svartagili í Haukadal en stöpullin var gerður úr stuðlabergi frá Hrepphólum. Þökkum við Einari Óskarssyni, Guðrúnu Sveinsdóttur, Þorsteini Þórarinssyni, Óskari Björnssyni, Ólafi Stefánssyni og Jóhanni B. Óskarssyni kærlega fyrir gjöfina.

Helena Hermundadóttir æskulýðsnefnd, Jóhann B. Óskarsson ásamt dóttur sinni Kristrúnu Jóhannsdóttur, Guðrún Svanhvít Magnúsdóttir formaður Loga og Sigríður Jóna Kristjánsdóttir.

Þá barst okkur stórkostleg gjöf fimmtudagsskvöldið 24. september síðastliðinn. Jóhann Björn Óskarsson hafði fengið Sigríði Jónu Kristjánsdóttur (Siggu á Grund) til að útbúa farandskjöld í minningu tveggja sona sinna Svanbergs Jóhannssonar og Gunnars Berg Jóhannssonar sem létust 19 og hinn 22 ára. Skjöldurinn ber nafnið Feykir og mun verða úthlutað í æskulýðsstarfinu til þess "einstaklings sem á einn eða annan hátt hefur sýnt framfarir á sviði hestamennskunnar og jafnframt verið öðrum góð fyrirmynd." Við þökkum kærlega fyrir hlýhug og fallegar gjafir sem æskulýðsnefndin getur með stolti veitt komandi kynslóðum.

Tuesday, September 15, 2009

Uppskeruhátíð æskulýðsstarfs Loga


Æskulýðsnefndin boðar til fundar mánudagskvöldið 28. september í grunnskólanum í Reykholti. Hugmyndin er að hittast kl. 20.00 og halda upp á gott starfsár. Þá mun nefndin kynna þær hugmyndir sem komnar eru fyrir komandi ár 2009-2010. Öll börn og foreldrar velkomin að kynna sér æskulýðsstarfið. Gaman væri ef allir gætu tekið eitthvað með á hlaðborð.
Þá stefnum við á að hafa reiðtygjaþrif í Fellskoti föstudaginn 23.október kl.17.00 og starta þar með vetrarstarfinu fyrr en vanalega.
Kv. Æskulýðsnefndin